Karellen
Námssvið leikskólans
Námssvið leikskólans skulu vera samofin öllu starfi og vera byggð á grunnþáttunum sex. Þau eru:
 Læsi og samskipti
 Heilbrigði og vellíðan
 Sjálfbærni og vísindi
 Sköpun og menning

Læsi og samskipti
Börn eru félagsverur og til þess að eiga samskipti við aðra nota þau ýmsar aðferðir. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni nemenda til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur samskipta og felur í sér að nemandinn búi yfir þekkingu, hafi færni til að skynja og skilja og geti sett orð á það sem hann upplifir og sér. Lögð er áhersla á að gera nemendur færa í að lesa úr öllum þeim skilaboðum, samskiptum og táknum sem þeir taka við í daglegu lífi og hvernig þeir geta nýtt reynslu sína og þekkingu til að vinna úr þeim.
 Lestur: Í leikskólanum er unnið með bernskulæsi þar sem ákveðin færni, þekking og viðhorf þróast sem undanfari læsis. Nemendur læra að ritmál hefur tilgang og merkingu og að talmál og ritmál tengjast órjúfanlegum böndum. Bernskulæsi inniheldur hefðbundna læsisþætti sem þróast jafnhliða og hafa víxlverkandi áhrif hver á annan, þeir þættir eru m.a. málþroski, tilgangur og hlutverk ritmáls, bókstafaþekking og ritun, hljóðkerfisvitund, tengsl lesturs og máls og skilningur á uppbyggingu texta (Halldóra Haraldsdóttir, 2014). Bækur, skriffæri og blöð eru aðgengileg og notuð á fjölbreyttan hátt í starfinu. Bók- og sögulestur ásamt fjölbreyttum spilum og leikjum ýta auk þess undir aukin lestraráhuga og unnið er með þann áhuga og byggð upp aukin færni.
 Markviss málörvun: Eitt af markmiðum leikskólans er að efla málþroska og hljóðkerfisvitund nemenda og vinna með hlustun, tjáningu og frásögn. Kennarar leitast við að setja orð á athafnir, eiga í og ýta undir samskipti og samræður. Ýtt er undir læsi, ritun og samskipti í frjálsum leik og nemendur starfa í læsishvetjandi umhverfi þar sem hlutir eru merktir með ritmáli og nemendur hafa aðgang að lestrar - og skriftarhvetjandi efnivið. Áhersla er lögð á lestur bóka, sögur og sögugerð, þulur og vísur, söng, rím og hugtakaskilning. Á yngri deildum er Tákn með tali notað til að styðja við talað mál auk þess sem myndir eru mikið notaðar sem kveikjur að samræðum.
 Samskipti: Nemendum er gefið svigrúm til að þess að tjá sig með ýmsum hætti og eiga uppbyggileg samskipti við aðra.
Unnið er með samskipti, tjáningu, framkomu og framsögn á markvissan hátt, til að auka
öryggi þeirra í samskiptum.
 Umhverfislæsi: Nemendur læra að lesa og vinna úr upplýsingum úr umhverfi
sínu og leikskólans, fylgjast með veðri og náttúru og átta sig á hvaða skilaboð er hægt að
lesa úr því. Gönguferðir þar sem nánasta umhverfi, staðhættir og landslag er kannað
eru stór þáttur í starfinu.
 Upplýsingatækni: Hinir ýmsu miðlar s.s. bækur, tímarit, myndefni og tölvur eru
nauðsynleg hjálpartæki þegar kemur að því að afla sér ítarlegri upplýsinga og
nemendum er kennd grunnfærni til að nýta sér þessi verkfæri í námi sínu. Nemendur
hafa aðgang að tækjum og miðlum sem gera þeim kleift að bæta við, efla og miðla
þekkingu sinni.


Heilbrigði og vellíðan

Hugtakið heilbrigði skilgreinist sem andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Heilbrigði og velferð ráðast af samspili einstaklings og umhverfis. Í leikskóla læra nemendur um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, gildi hreyfingar, hollt mataræði, hvíld og mikilvægi hreinlætis. Einnig læra þeir gildi góðra samskipta auk þess sem kennarar leitast við, í samstarfi við foreldra, að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd. Kennarar eru vakandi fyrir einkennum hverskonar misnotkunar, vanlíðunar eða öðru sem betur mætti fara í umönnun nemenda og vinna úr því eins og reglur gera ráð fyrir, sé þörf á inngripum.
 Sjálfsábyrgð: Í gegnum leik læra nemendur að eiga jákvæð og gefandi samskipti við aðra, leysa
ágreiningsmál sín á milli, læra að taka ábyrgð á eigin hegðun og viðbrögðum. Nemendur læra að þekkja
styrkleika sína og öðlast þannig færni til að vinna með veikleika sína. Að þekkja sjálfan sig og bera virðingu
fyrir sjálfum sér og líkama sínum myndar góða sjálfsmynd. Þannig öðlast nemendur aukið traust og þor til
að taka ákvarðanir og standa við þær. Nemendur eru þátttakendur í að halda umhverfi sínu snyrtilegu með
því að taka saman og ganga frá eftir sig, allt eftir aldri þeirra og þroska.
 Hreyfing: Hreyfing og vellíðan hafa jákvæð áhrif á samskipti nemenda, umgengni þeirra við umhverfi sitt og hæfni þeirra til að takast á við daglegt líf og nýjar aðstæður. Nemendur hafa mikla þörf fyrir að fá að hreyfa sig frjálst og óhindrað enda er hreyfing öllum eðlislæg auk þess sem hún eykur vellíðan þeirra, gleði, snerpu og þol og styður við líkamlegan og andlegan þroska þeirra. Góð hreyfigeta og vellíðan nemenda styður auk þess við sjálfsmynd þeirra og eflir sjálfstæði þeirra í daglegum athöfnum. Hreyfiþjálfun fer fram í frjálsum leik og hópleikjum í útiveru, göngutúrum og hreyfileikjum í nánasta umhverfi leikskólans auk þess sem skipulagðar hreyfistundir eru einu sinni í viku.
 Heilbrigði: Líkamleg og andleg hvíld og hollt og næringarríkt fæði er nauðsynlegt
til þess að nemendur geti tekist á við daginn og verkefni hans á sem bestan hátt. Umræða
um heilsufarsleg mál, andleg sem líkamleg, hafa mikið forvarnagildi og vekja nemendur til
umhugsunar. Þekking og upplýsingar hjálpa nemendum síðar meir að taka ákvarðanir
varðandi eigin heilsu og réttindi.
 Vellíðan: Leitast er við að hver nemandi fáist við viðfangsefni við sitt hæfi.
Mikilvægt er að samskipti nemenda bindi þau vináttuböndum og styrki samkennd þeirra. Í
leikskólanum er það talinn ávinningur fyrir alla að eiga þar fjölbreytt samfélag.
 Foreldrasamstarf: Í samvinnu mynda kennarar, foreldrar og nemendur skólabrag
sem getur skipt sköpun fyrir líðan allra þeirra aðila sem að skólanum koma. Þátttaka
foreldra í skipulagi skólastarfs og mótun skólastefnu er mikilvæg þegar kemur að því að
skapa góðan skóla og getur haft sömu áhrif og besta forvarnarstarf. Traust og góð tengsl
nemenda og kennara frá upphafi skólagöngu stuðla að öryggistilfinningu og vellíðan
nemenda.


Sjálfbærni og vísindi

Markmið sjálfbærni er að nemendur og starfsfólk átti sig á að þau vistspor, sem sérhver einstaklingur skilur eftir sig skipta miklu máli – í nútíð og framtíð. Réttast er að leitast við að uppfylla þarfir sínar á hverjum tíma án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama. Vekja skal áhuga nemenda fyrir fegurð náttúrunnar og efla virðingu fyrir henni og ábyrgðarkennd. Til að læra að lesa náttúru og samfélag þarf fólk að upplifa, skoða og skilja umhverfi sitt en forsenda þess að fólk vilji vernda náttúruna er að kynnast henni.
 Umhverfisvitund: Við stefnum að umhverfisvitund þar sem fólk skynjar hvaða hegðun er við hæfi í
náttúru og samfélagi og sýni bæði fólki og umhverfi tillitsemi, virðingu og kurteisi. Grunnvistkerfi
jarðar er tiltölulega einfalt og er allsstaðar það sama. Mikilvægt er að þekkja þessa hringrás og gera
sér grein fyrir að sumt sem við gerum er óafturkræft á meðan annað er endurnýtanlegt. Jörðin er
einstök og hana verður að virða og fara vel með svo hún nýtist okkur og öllum öðrum í framtíðinni
líka. Kennurum ber að vera fyrirmynd nemenda, efla umhverfislega vitund þeirra, útskýra tengsl
manns og náttúru og skapa nemendum möguleika á að uppgötva og upplifa umhverfið. Það er gert
með því að kanna umhverfið á þann hátt sem er nemendum eðlislægt þ.e. með því að snerta, horfa,
hlusta, bera saman, flokka, rannsaka, draga ályktanir og upplifa um leið og þeim er kennt að sýna
náttúrunni virðingu og alúð.
 Nærumhverfið: Nærumhverfi okkar og samfélag býður upp á ótal möguleika og vettvangsferðir, þar
sem náttúran og allt lífríki hennar er skoðað og kannað og möguleikar okkar til að hafa áhrif eru
metnir. Í leikskólanum er leitast við að nota nærumhverfið sem mest með útikennslu og
vettvangsferðum þar sem rými, fjarlægðir og áttir eru skoðaðar. Efniviður er endurnýttur og
nemendum innrætt að vera nýtin, hófstillt og tileinka sér að ekkert verður til úr engu. Mikilvægt er
að nemendur læri að hver og einn getur haft áhrif og að margt smátt gerir eitt stórt.
 Árstíðir: Að skilja náttúruna, upplifa árstíðir hennar, veðráttu, krafta og mikilfengleika - sem við á
okkar svæði höfum ekki farið varhluta af krefst innsýnar í heim vísindanna. Ýta ber undir vísindalega
hugsun og aðstoða nemendur við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu og styrkja skilning þeirra á
hugmyndum og hugtökum.
 Vísindi: Skapa skal aðstæður svo nemendur fái tækifæri til að vinna með og velta vöngum yfir
stærðfræðilegum viðfangsefnum, s.s. tölum, táknum og mynstrum og eiginleikum ýmissa efna og
hluta. Einnig möguleikum og takmörkunum tækninnar og hvernig við öflum okkur upplýsinga með
því að skoða, rannsaka, prófa og draga ályktanir.


Sköpun og menning

Sköpun er veigamikill þáttur í námi og þroska nemenda. Þegar nemendur eru að kanna og læra nota þau öll skilningarvit og þá hreyfifærni sem þau búa yfir. Hlutverk kennara er að skapa aðstæður og jákvætt andrúmsloft sem gera þeim kleift að vinna úr og fá útrás fyrir upplifanir og reynslu. Með því að vinna með fjölbreytta sköpun geta nemendur tjáð sig á eigin forsendum starfað af eigin hvötum, fengið útrás fyrir meðfædda forvitni sína og nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum. Þannig ýtum við undir skapandi hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum.
 Ferlið: Skapandi starf á fyrst og fremst að beinast að ferlinu sjálfu, gleðinni, tjáningunni og náminu
sem á sér stað þegar tilfinningar, ímyndun og hugmyndir lifna við en ekki útkomunni. Umhverfi
leikskólans á að örva skynjun og styðja við sköpunarkraft nemenda. Tækifæri eru nýtt til að tvinna
listsköpun inn í leik og annað starf, virkja ímyndunaraflið og leika sér með möguleika þess.
Auðveldast er að meðtaka þekkingu þegar umhverfið er jákvætt og styðjandi.
 Sköpun: Opinn efniviður, verðlaust efni sem til fellur og vísindi ýta undir hugmyndaflug og
sköpunargleði og þannig skapast aðstæður sem reyna á rökhugsun og lausnaleit nemenda.
Nemendur skapa ýmist einir eða í hóp.
 Tjáning: Gefa þarf rými og tíma fyrir skapandi tjáningu þar sem nemendur geta unnið. List er
mikilvægur tjáningarmiðill og getur verið frásögn, tjáning, myndlist, tónlist, dans, leiklist, miðlun
gengum tölvur, söngur, hönnun o.fl. Nemendur tjá og túlka reynslu sína og endurspegla þannig
hugarheim sinn og þroska. Markmiðið er ekki að skapa listamann heldur skapandi og sjálfstætt
hugsandi einstakling.
 Menning er samofin öllu starfi leikskóla og tengist leik, lýðræði, skapandi starfi og þjóðmenningu.
Menning fléttast inn í allt starf leikskólans og nemendur kynnast menningunni og samfélaginu sem
þeir lifa í út frá eigin þroska og áhuga. Við heimsækjum söfn, vinnustaði, dvalarheimili og
björgunarsveitir í samfélaginu okkar og kynnumst sögu þess og
sérkennum. Nemendum frá öðrum menningarsvæðum er kennt að
vera virkir þátttakendur í hinu nýja samfélagi án þess að þeir glati
tengslum við eigin menningu.
 Hefðir eru ákveðin menning og tengsl við sögu okkar og
fortíð. Í íslensku þjóðlífi eru ýmsar hátíðir og hefðir sem nemendur
kynnast og taka þátt í á heimilum sínum og í leikskólanum.
Leikskólinn leitast við að halda í þær hefðir sem mynda
menningararf okkar, þannig að nemendur kynnist þeim og læri að
virða. Við tökum þátt í uppákomum og hátíðum í samfélaginu og
búum einnig til okkar eigin í leikskólanum.


© 2016 - 2024 Karellen