Karellen

Uppeldisstefna Arkarinnar er byggð á hugmyndafræði hugsmíðahyggju. Til þess að ná fram þeim þáttum sem við viljum, leggjum við áherslu á leik, könnunaraðferð og könnunarleik, auk þess sem allt starf okkar miðast við þessa hugmyndafræði.

Hugsmíðahyggja
Hugsmíðahyggja er samsafn kenninga um nám. Þar má meðal annars nefna kenningar Jean Piaget og Lev Vygotsky um uppbyggingu þekkingar og einnig kenningu John Dewey um nám á forsendum nemandans og þeirrar reynslu sem hann verður fyrir. Hugsmíðahyggja snýst um að nemendur séu virkir og læri með því að nota fyrri hugmyndir sínar og byggja þannig upp reynslu, þekkingu, færni og viðhorf. Þeir nýta reynslu sína og mynda úr henni heildstæðan skilning. Raunverulegur skilningur felur í sér að nemandinn tengir nýtt nám við fyrri reynslu og þekkingu. Þannig verður til ný þekking þar sem þetta tvennt tengist saman í órjúfanlega heild. Hugmyndafræðin felur í sér að skólastarf eigi ekki að snúast um að mata nemandann á upplýsingum og staðreyndum heldur að hann tileinki sér þekkingu og skilning og verði virkur aðili að eigin uppbyggingu félagslegrar færni, siðgæðis- og vitsmunaþroska.
Í skólastarfinu er lögð áhersla á ígrundun, lausnaleit, rökhugsun, skilning og beitingu þess sem lært hefur verið. Með því verða nemendur leitandi og gagnrýnir, kunna að leita lausna og upplýsinga, taka ígrundaðar ákvarðanir sem byggðar eru á gildismati og breyta síðan í nýja þekkingu.

Námssviðin skarast og þau eru samofin undirstöðuþáttum leikskólastarfsins: leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikni.
Leikskólinn Örk hefur sett sér sín eigin markmið sem eru unnin á grunni laga og meginmarkmiða Aðalnámskrár, einnig er þar tekið tillit til aðstæðna þ.e. starfsfólks, húsnæðis, umhverfis og þess samfélags sem við búum í.
Markmið leikskólans eru:
• að veita nemendum hlýju, umhyggju, öryggi og aga.
• að efla sjálfstæði, samkennd og lífsleikni.
• að efla alhliða þroska nemendanna.
• að stuðla að góðri samvinnu við foreldra.
• að viðhalda starfsgleði í leikskólanum.

Námssvið leikskólans
Námssvið leikskólans skulu vera samofin öllu starfi og vera byggð á grunnþáttunum sex. Þau eru:
• Læsi og samskipti
• Heilbrigði og vellíðan
• Sjálfbærni og vísindi
• Sköpun og menning
Læsi og samskipti


Börn eru félagsverur og til þess að eiga samskipti við aðra nota þau ýmsar aðferðir. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni nemenda til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur samskipta og felur í sér að nemandinn búi yfir þekkingu, hafi færni til að skynja og skilja og geti sett orð á það sem hann upplifir og sér. Lögð er áhersla á að gera nemendur færa í að lesa úr öllum þeim skilaboðum, samskiptum og táknum sem þeir taka við í daglegu lífi og hvernig þeir geta nýtt reynslu sína og þekkingu til að vinna úr þeim.

Heilbrigði og vellíðan
Hugtakið heilbrigði skilgreinist sem andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Heilbrigði og velferð ráðast af samspili einstaklings og umhverfis. Í leikskóla læra nemendur um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, gildi hreyfingar, hollt mataræði, hvíld og mikilvægi hreinlætis. Einnig læra þeir gildi góðra samskipta auk þess sem kennarar leitast við, í samstarfi við foreldra, að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd. Kennarar eru vakandi fyrir einkennum hverskonar misnotkunar, vanlíðunar eða öðru sem betur mætti fara í umönnun nemenda og vinna úr því eins og reglur gera ráð fyrir, sé þörf á inngripum.
Sjálfbærni og vísindi
Markmið sjálfbærni er að nemendur og starfsfólk átti sig á að þau vistspor, sem sérhver einstaklingur skilur eftir sig skipta miklu máli – í nútíð og framtíð. Réttast er að leitast við að uppfylla þarfir sínar á hverjum tíma án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama. Vekja skal áhuga nemenda fyrir fegurð náttúrunnar og efla virðingu fyrir henni og ábyrgðarkennd. Til að læra að lesa náttúru og samfélag þarf fólk að upplifa, skoða og skilja umhverfi sitt en forsenda þess að fólk vilji vernda náttúruna er að kynnast henni.
Sköpun og menning

Sköpun er veigamikill þáttur í námi og þroska nemenda. Þegar nemendur eru að kanna og læra nota þau öll skilningarvit og þá hreyfifærni sem þau búa yfir. Hlutverk kennara er að skapa aðstæður og jákvætt andrúmsloft sem gera þeim kleift að vinna úr og fá útrás fyrir upplifanir og reynslu. Með því að vinna með fjölbreytta sköpun geta nemendur tjáð sig á eigin forsendum starfað af eigin hvötum, fengið útrás fyrir meðfædda forvitni sína og nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum. Þannig ýtum við undir skapandi hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum.


Kennifrömuðir

Jean Piaget
Piaget fæddist í Sviss árið 1896 og dó árið 1980. Hann var náttúrufræðingur að mennt en hafði jafnframt mikinn áhuga á heimspeki og þá sér í lagi þekkingarfræði.

Piaget hélt því fram að það að læra og skilja væri virkt ferli. Þekking er sá árangur sem verður af því sem við gerum. Barnið er háð því að geta rannsakað og gert tilraunir til þess að læra og skilja. Piaget taldi að þróun þekkingar hjá einstaklingi væri ferli hugsmíða og þroska mannsins væri að mestu stjórnað af innri ferlum. Piaget sagði að börn þyrftu að hafa hluti til að læra af og það væri ekki nóg að hafa blað og blýant því börn væru forvitin og læra mest með því að rannsaka umhverfið og byggja þannig upp nýja þekkingu. Þetta er það sem kallast uppgötvunarnám.



Lev Vygotsky
Vygotsky var rússneskur kennari og sálfræðingur. Árið 1962 skrifaði hann bókina Thought and Language. Hann hefur lagt sitt af mörkum í sálfræðinni og má sérstaklega nefna framlag hans um þroska barna. Hann kemur við sögu hugsmíðahyggjunnar með kenningu sinni um félagslegt samspil einstaklings, umhverfis og menningar og er þá oft talað um félagslega hugsmíðahyggju.

Samkvæmt námskenningum hans er nauðsynlegt að kennarinn leiti eftir því að skapa ríkt félagslegt umhverfi sem er hvetjandi til náms bæði í gegnum samskipti við kennarann og einnig á milli nemenda. Vygotsky segir að hlutverk kennara sé að sjá börnum fyrir verkefnum sem liggja innan “svæðis mögulegs þroska” og fylgja þeim eftir með leiðbeiningum eða stuðningi. Einnig er mikilvægt að verkefnin séu aðeins fyrir ofan getu þeirra til þess að þau nái að þroskast frekar en að verkefnin reyni á það sem þau geta fyrir.


Kamii og DeVries
Leikskólastefna Kamii og DeVries er upprunnin í Bandaríkjunum og höfundar hennar eru þær Constance Kamii sem er prófessor við Kennaraháskólann í Alabama, hún einbeitti sér að stærðfræðinámi barna og Rheta DeVries sem hefur einkum einbeitt sér að félags- og siðgæðisþroska barna, hún hefur yfirumsjón með rannsóknarsetri sem rekin er innan Háskólans í Houston, auk þess að vera prófessor við sama skóla.

Kamii og DeVries setja fram nokkur atriði sem kennari yngri barna þarf að hafa í huga ef hann vill hafa uppbyggjandi andrúmsloft í skólastofu sinni. Hann verður alltaf að byrja á því að athuga hvernig samskipti hans við börnin eru í raun, hvort þau byggist á gagnkvæmri virðingu og hvort hann nálgist þau sem jafningja.

Kennarinn á að skapa umhverfi og andrúmsloft sem leiðir til náms því þegar allt kemur til alls eru það gæði umhverfisins sem kennarinn skapar og öll samskipti sem annaðhvort örva eða draga úr þroska barna.

Kamii og DeVries líta á sjálfræði (autonomy) sem markmið sem felur í sér öll önnur markmið. Áhersla er lögð á að börn séu sjálfstæð, vakandi og noti sjálfræði sitt í að framfylgja forvitni sinni, og að börn hafi sjálfstraust til þess að leysa vandamál og segja hug sinn á sannfærandi hátt.

Mikilvægi sjálfræðis hefst á leikskólaaldri og heldur áfram allt lífið. Kamii bendir á að mikilvægt sé að nota aðferðir sem stuðli að sjálfræði barna til þess að þau verði hæfari einstaklingar til að greina á gagnrýnin hátt eigin aðstæður í stað þess að treysta á að aðrir hugsi fyrir þau.


Berit Bae
Er lektor í uppeldisfræði í háskólanum í Ósló. Hún gerði rannsókn á starfi með leikskólabörnum með því að ráða sig í vinnu á leikskóla til að fylgjast með hvernig starfið fer fram. Hún leggur áherslu á gagnvirknistengslakenningu, sem er meðal annars byggð á reglu Hegels um gagnvirkni viðurkenningarinnar. Meginþema í þessum hugsanagangi er að við séum meðvituð um okkur sjálf og sjálfstæði, eingöngu með því að vera viðurkennd af öðrum. En viðurkenningartengsl eru grundvölluð á jafnræði.

Berit Bae leggur áherslu á samskipti barn/ barn og barn/ fullorðinn

Aðalhugtök í hennar kenningum eru:

- Sjálfsvirðing

- Viðurkennandi

- Aðgreining

- Ígrundun/Speglun

- Skilgreiningarvald

Berit Bae segir viðurkennandi samskipti vera grunninn sem allt hvíli á. Í því felst að barnið er sérfræðingur í eigin upplifunum og okkur beri að virða þær, reyna að setja okkur í spor barnsins og hlusta á það. Viðurkenningin kemur fram í öllu hátterni okkar við aðra og kemur fram í grundavallarframkomu jafnréttis og virðingar.

Berit Bae segir að hugtakið viðurkennandi vera markmið eða vermæti í sjálfu sér. Það að vera viðurkennandi í tjáskiptum felur einmitt í sér að upplifa hluta af þeim gildum sem eru sjálfsvirðing umburðarlyndi og mannleg virðing.

Hugtakið skilgreiningarvald vísar til þess, að fullorðnir eru í sterkari stöðu gagnvart barninu hvað snertir upplifum þess af sjálfu sér. Lítil barn er hins vegar háð þeim fullorðnu sem annast þau. Þess vegna er það sérstaklega mikilvægt að þetta vandamál sé mönnum ljóst þegar unnið er með börn.

Bae segir samskipti vera mjög mikilvæg fyrir alhliða þroska barnsins og það á að viðurkenna þeirra upplifun án þess að leggja á hana dóm. Viðurkenning er talin vera ein að frumþörfum mannsins. Einstaklingurinn hefur þörf fyrir að vera skilinn og viðurkenndur. Með viðurkennandi samskiptum veitum við barninu tækifæri til að þróa jákvæða sjálfsmynd þar sem upplifanir, hugsanir og tilfinningar þess eru virtar.

Að skilja aðra út frá eigin forsendum krefst hlustunar. Að hlusta merkir að vera “opin” fyrir öðrum. Það merkir líka að geta hlustað á annað en orðin. Til að hlusta verðum við að hafna því að stjórna öðrum.

(https://rjupnahaed.kopavogur.is/um-skolann/stefna/kennifromudir/)


© 2016 - 2024 Karellen