Karellen

Þegar barn byrjar í leikskóla er það stór stund í lífi bæði þess og foreldranna. Fyrir margar fjölskyldur eru þetta tímamót sem krefjast breytinga á högum þeirra og valda oft streitu. Til að auðvelda aðallega börnunum en líka foreldrum og starfsfólki umskiptin höfum við í leikskólanum Örk ákveðið að fara þá leið að hafa þátttökuaðlögun.

Er þetta aðferð að sænskri fyrirmynd og byggir á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur sé barnið að læra að vera í nýjum aðstæðum. Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað.

Þátttökuaðlögun byggir meðal annars á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggi, forvitni og spennu fyrir þessum nýju aðstæðum til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og starfsfólki og milli þeirra skapast oft vinskapur.

Ef barnið er að koma af öðrum leikskóla er ekki víst að það þurfi þetta langan tíma með foreldrinu, það er metið í samráði við foreldra og deildarstjóra í hverju tilviki fyrir sig.

Framkvæmd

Á tilsettum degi sem barnið mætir í fyrsta skiptið hefst aðlögunin með því að barnið mætir kl. 09:00 í leikskólann og er til kl. 11:00 með foreldri sínu.

Næstu 2 daga eru foreldri og barn frá kl. 08:30 til kl. 14:30. Foreldrar taka þátt í öllum verkefnum barnsins undir leiðsögn kennara þessa daga. Þeir sjá að auki um að sinna þörfum barna sinna, gefa þeim að borða, skipta um bleiur og leika með þeim.

Hlutverk kennaranna er að leiðbeina foreldrum og börnum, leggja þeim til verkefni og skrá hjá sér ýmis atriði í samskiptum foreldra og barna, atriði sem þeir svo tileinka sér í samskiptum sínum við viðkomandi barn.Á fjórða degi kveðja börnin foreldra sína og eru í leikskólanum allan daginn. Gott er ef foreldrar sjá sér fært að stytta fyrstu dagana eftir aðlögun.

Hvert barn fær úthlutaðan lykilstarfsmann sem er tengiliður milli leikskóla og foreldra og hefur yfirumsjón með aðlögun barns.

© 2016 - 2024 Karellen